Eigandi fasteignarinnar Austurstræti 16 í Reykjavík hefur samþykkt kauptilboð dótturfélags Regins hf. í alla eignina. Fasteignin sem byggð var á árunum 1916 - 1918 og þekkt er sem gamla Reykjavíkurapótek er 2.773 m2 að stærð. Eignin er ein af perlum Reykjavíkurborgar og stendur við Austurvöll. Hönnuð af Guðjóni Samúelssyni, arkitekti og húsameistara ríkisins. Húsið á sér merkilega sögu í íslensku athafnalífi og er samofið uppbyggingu og sögu Reykjavíkurborgar. Húsið er friðað að utan, einnig tekur friðun til stigagangs að sunnan og innréttinga sem áður stóðu í apóteki.
Reginn telur eignina bjóða upp á mikla möguleika vegna einstakrar staðsetningar í miðbæ Reykjavíkur og nálægð við þjónustu, veitingastaði og menningalíf. Reginn hefur hug á því að fara í samstarf við öfluga aðila varðandi nýtingu hússins undir hótel- og veitingarekstur. Vandað verður til verka hvað varðar hönnun og breytingu innanhúss.
Áætlað er að kaupsamningur verði undirritaður í október 2013.
Kaup þessi eru innan ramma fjárfestingastefnu Regins sem felur meðal annars í sér að auka hlut í húsnæði tengdu ferðaiðnaðinum. Kaupverðið er trúnaðarmál.

Hverfahleðsla við Smáralind

Reginn hagnast um 3,9 milljarða á fyrsta ársfjórðungi - EBITDA hækkar um 11,2%
